Færsluflokkur: Bloggar

Hvernig veit ég hvort barnið mitt er latt eða lesblind

Hvernig veit ég hvort barnið mitt er latt eða lesblint?     

ER kennarinn að kvarta um að barnið þitt sé latt, sýni ekki áhuga á námsefninu eða það sé annars hugar í skólastofunni? Gæti það verið að barnið mitt sé lesblint eða er það bara latt eins og kennarinn gefur í skyn? Hvað á ég að gera til þess að komast að því?

Þetta kemur upp í hugann hjá mörgum foreldrum sem eru í vafa um að barnið þeirra geti verið lesblint. Það fyrsta sem foreldrar eiga að gera, er að fara og tala við skólann. En skólinn er ekki alltaf sammála um það að barnið gæti verið lesblint og er ekki alltaf tilbúinn að senda barnið í greiningu og því miður kemur það alltof oft fyrir.

Það er mikilvægt að foreldrar standi fast á sínu ef það hefur einhvern grun um að barnið sé lesblint, séu ekki að bíða eftir því að skólayfirvöld geri eitthvað heldur sendi börnin sjálf í greiningu. Ef barnið er lesblint er mikilvægt að fara að vinna strax með það og fræða barnið hvað lesblinda er, því það skiptir miklu máli að einstaklingurinn þekki sína takmörkun og viðurkenni vandann, fyrr er ekki hægt að vinna með það.

Best er að láta einstakling sem ekki er tengdur skólanum né heimilinu fræða barnið um lesblindu. Því oft er tekið svo seint í taumana að það er farin að myndast togstreita á milli kennara og nemandans og jafnvel foreldra barnsins. Lesblindir einstaklingar skammast sín oft fyrir að vera lesblindir og hafa minnimáttarkennd yfir því að standa ekki í sömu sporum og aðrir námslega, vegna þess að oft hafa þessir nemendur ekki fengið rétta stuðninginn fyrstu skólaárin og mörg dæmi eru um það að nemendur hafa jafnvel verið niðurlægðir af kennurum sínum fyrir framan bekkinn því kennarinn heldur að nemandinn sé bara latur og heimskur.

Lesblinda er ekki skömm en það er skömm hvernig skólayfirvöld hafa komið fram við lesblinda, og þó það sé búið að greina þá, þurfa þeir jafnvel að leita eftir stuðning sjálfir, sem á ekki að eiga sér stað. Ég spyr: "Er ekki komið árið 2007 eða hvað?"

Og það hefur sýnt sig að margir hafa farið út í neyslu vímuefna, eru þunglyndir, félagsfælnir o.fl. af því að hjálpin hefur ekki komið á réttum tíma eða hefur ekki verið nein, af því að skólinn hefur ekki staðið sig sem skildi. Voru lesblindir, þetta segir sitt.

 

Algeng úrræði hjá skólanum er að setja lesblinda í sér bekk með börnum með aðrar hömlur, svo sem ýmis þroskafrávik, en það er eitt sem ætti ekki að gera því það truflar þá bara. Því í sér bekkjum eru oft einstaklingar sem eru með mikinn hávaða í skólastofunni og þá geta lesblindir ekki einbeitt sér, því þeir þurfa mikið næði og ró og þola illa utanaðkomandi áreiti þegar þeir eru að læra. Einnig geta þeir farið að rugla saman sínum hömlun við aðrar.

Mikilvægt er að kennarinn láti vita hvaða efni hann ætlar að fara yfir í næsta tíma og láti lesblinda nemendur jafnvel hafa glósur fyrirfram ef þær eru til, svo nemandinn geti verið búinn að undirbúa sig fyrir tímann og það skiptir miklu máli að það sé góð samvinna á milli heimilis og skóla.

Lesblindir með greiningu hafa aðgang að blindrabókasafninu en þar geta þeir fengið námsefni á spólum. Mörgum reynist vel að nota litaglærur.

Einnig er hægt að fá upplýsingar um lesblindu á vefnum www.lesblindusetrid.is. Oft er mikill vilji hjá nemandanum að standa sig vel en kennarinn þarf að vera mjög vel vakandi yfir því hvaða kröfu hann getur gert til nemandans því lesblinda hjá einstaklingum er mismikil og ef nemandinn finnur fyrir óöryggi hjá kennaranum, notfærir hann sér það jafnvel með því að láta kennarann vorkenna sér svo hann geti komist undan lærdómnum og það má alls ekki ske. Því ekki má gleyma að lesblindir eru einstaklingar og ef þeir hafa kost á því að sleppa við lærdóminn þá gera þeir það bara eins og aðrir nemendur. Og þeir eins og aðrir átti sig ekki á því að ef þeim hefur verið hlíft í grunnskóla og þeir hafa svo áhuga á því síðar að fara í framhaldsskóla þá verður það bara miklu erfiðara fyrir þá.

Ég vil skora á menntamálaráðherra og skólayfirvöld að hlúa vel að lesblindum, því þeir þurfa að leggja tvöfalt, jafnvel þrefalt á sig miðað við aðra nemendur. Og oft heyrir maður að yfirvöld vilji og ætla að styðja við bakið á þeim sem gengur vel í skóla, vilja lækka hjá framhaldsskólanemum/háskólanemum skólagjöld o.fl.

En fyrst og fremst þurfum við að hlúa vel að nemendum í grunnskólum landsins áður en við byrjum á framhaldsskólunum því eins og máltækið segir "við þurfum að byrgja brunninn áður en barnið dettur í hann."

Og til þín lesandi góður sem ert lesblindur segi ég: Það er ekki skömm að vera lesblindur. Vertu bara stolt/stoltur af því og þeim hæfileikum sem þú hefur.

Ég er lesblind stelpa og í þessari grein er ég ekki að saka neinn um hvernig skólaganga mín var. Ég er bara að segja frá skoðun minni og það sem mér finnst að betur hefði mátt fara og megi breyta úr þessu. Einnig hef ég talað við marga sem eru lesblindir eða eiga ættingja sem eru lesblindir og við virðumst öll hafa svipaða sögu að segja.

skrifaði eftirtektarverða grein í sunnudags-blað Morgunblaðsins


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband